Á jólum kemst maður í tæri við almættið - hættulega nálægt á stundum!

Það er ekki á hverjum degi sem maður les um uppgötvanir í læknisfræði sem skipta máli. En stundum gerist það og þá verður maður þakklátur og bljúgur með eindæmum.

Svo var það um þessi jól.

Ég nefnilega las það í mogganum, sem aldrei lýgur, að læknar hafa komist að þeirri grundvallar niðurstöðu - þekkingu - uppgötvun sem auðvitað ætti að sæma Nóbel - en hvað um það - uppgötvun þessi er sú að nætursnarl hefur engin sérstök áhrif á holdarfar!

Og þetta hef ég alltaf vitað. 

Og lifað hef ég eftir þessu mottói. Að vísu gegn betri sannfæringu konu minnar sem hefur í raun verið mér Þrándur í götu í þeim efnum - jafnvel gert að mér grín á stundum. 

Svo koma jólin - með endalausum góðbitum og afgöngum sem mett geta marga munna um dimmar nætur - eða er einhver munur á því að metta marga munna einu sinni eða einn munn mörgum sinnum - svo ég taki mér nú orð Nóbelskáldsins til frjálslegrar notkunar. Og satt hafa bitarnir munn minn og maga. Svo svakalega að ég hef átt erfitt með að halda mér vakandi - nema þá rétt til að borða meira - lesa svo pínu og sofna á ný. 

Og í dag komst ég semsagt nálægt almættinu. Hættulega nálægt.

Eftir stórkostlega máltíðir - kaffisopa með sörum og nætursnarl - fengum við okkur svo afganga í dag. Ég hafði vaknað seint - skriðið á fætur og farið út í göngutúr -  skroppið í vinnuna. Hafði í hugsunarleysi ekki fengið mér skammt - keyrði bara á leyfunum. Þegar leið á daginn fann ég hvernig fráhvarfseinkennin létu á sér bæra. Kuldahrollur og skjálfti - máttleysi og tilfinningadeyfð. Ég þurfti að bæta á mig skammti - neyslan var búin að vera svo svakaleg síðustu daga að líkaminn hreinlega öskraði á meira - meira...meira...meira. 

Þegar ég kom heim tók konan á móti mér - ég sá hana í þoku. Settist niður - skalf og fann hvernig ískaldur svitinn spratt fram á enninu. Ég bara varð að fá skammt - einn skammt - til að lifa. Bara einn - skammt - einn. Skammt.

Konan horfði á mig brosandi. Líður þér illa elskan segir hún varfærnislega. Já segi ég skjálfandi röddu. Vertu rólegur segir hún og reynir að róa mig. Ég sit stjarfur. Horfi framfyrir mig og sé hvorki né heyri nokkuð. Finnst ég vera að falla í ómegin. Guð hjálpi mér. Ég get ekki hætt svona skyndilega - ég verð að fá að trappa þetta niður - minnka neysluna í rólegheitum. Má ekki ofgera mér.

Og í því sem mér fer að sortna fyrir augum finn ég ilminn af kalkún - sósu - hangiketi og meira að segja afgangurinn af grænu baununum var sem málverk í augum mér. Mér var borgið. Skammturinn. 

Og einsog úlfur réðst ég til atlögu. Ég fann hvernig maginn fékk fylli - taugarnar róuðust - ég fór að gera mér grein fyrir umhverfi mínu - sá kerti loga - ljósin á jólatrénu. Skyndilega varð ég þess var að með mér sátu til borðs kona mín og sonur. Horfðu á mig spyrjandi. 

Pabbi minn varstu svangur? spurði sonurinn. 

Tja, dálítið - ekkert rosalega. Pínu sagði ég og þakkaði guði fyrir að vera ekki dáinn. Það munaði ekki miklu að maður stæði við hliðið hjá Pétri - glorsoltinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Þorleifur.

Það er Guðs gjöf að nálgast almættið og ég get lofað þér því að nálgast Drottin fylgir engin HÆTTA heldur er það BLESSUN.(en hann er ekkert hrifin af græðgi)

Algóður Guð vaki yfir þér og þínum.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 04:10

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tvær af sjö dauðasyndum varða græðgi. Önnur græðgi svona almennt og svo þótti sérstakt tilefni til að gera matgræðgi að sér synd.  Hér sýnist mér hún hafa verið bæði vandinn og lausnin, eins og svo margt í þessu lífi.

Láttu mig þó ekki skelfa þig, því það stendur ekkert um dauðasyndir í Biblíunni og hvað þá matgræðgi. Þetta er listi sem Lúter kallinn bjó til forðum, líklegast í reiðikasti út í síspikaða og lostlífa páfa.

Et og ver glaðr og hafðu ekki áhyggjur af almættinu, það er nú ekki máttugra en svo að það ræður ekkert við að útrýma þessum svokölluðu löstum.  Epikúrus afgreiddi það fyrir 2200 árum raunar. Það getur hreinlega ekki verið til, svo þú átt frít spil.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.12.2008 kl. 09:54

3 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Hehehe, þetta hefur staðið tæpt hjá þér.  Karl minn hefur alveg reddað þessu fyrir mig, nú tvö jól í röð.  Komið með tvíreykt lambalæri sem hann hengir upp inni í búri á Þorláksmessu.  Þá svimi og hungurangist fer að sverma að mér, bregð ég mér í búrið með beitta sveðju að vopni, og sker mér "væna" flís.  Namm!  Enda hef ég aðeins séð Almættinu bregða fyrir í kirkju hjá séra Vigfúsi þessi tvenn jól.

  Góðar jólastundir.

Sigríður Sigurðardóttir, 27.12.2008 kl. 11:59

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já það er svo, en þú talar um að hafa sofið mikið og síðan fengið svona skjálfta. Ef þetta eru alvöru staðreyndir en ekki bara góð saga, þá mundi ég í þínum sporum láta mæla í mér blóðsykurinn og gá hvort innsúlínið í kroppnum væri eitthvað ruglað. Sykursýki II er eitthvað sem læðist að manni og getur svo látið vita af sér jafnvel á jólunum. Það gerðist á mínum bæ.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.12.2008 kl. 21:12

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Var að lesa um þig og sé að þið eigið svona "kusk" á enda á hundaól. Við líka, alveg yndisleg dýr.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.12.2008 kl. 21:14

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þú ýkir ekkert núna eða hvað?

Hólmdís Hjartardóttir, 30.12.2008 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband