Týndi sonurinn kominn í leitirnar!

Það hefur verið hálfgerð deyfð í Bragakaffi að undanförnu. Magnús horfinn og ekki farið neinum sögum af ferðum hans. Nú ber hinsvegar svo við að hann er kominn í leitirnar - er lífs og kominn heim til Braga á ný!

Að vísu hafa karlarnir verið með ýmsar kenningar um hvarf Magnúsar - sumar tengjast hruni bankanna - aðrar hreinlega að nú hafi hann flutt utan og sé farinn að gera það gott í heitari löndum - þar sem berjaspretta er betri og berin stærri. Óli frá Gjögri minnir á að áður hafi Magnús horfið - jafnvel tekið út af bát - en ávallt komið til baka.

En Magnús var aldeilis ekki flúinn eins og vatnsgreiddi bankamaðurinn fyrir sunnan. Magnús var einfaldlega "að drepast" - fór ítrekað á spítalann en það var sama hvað þeir leituðu - ekkert amaði að Magnúsi - enda bara 79 ára unglingur - kornungur og í ljósi samdráttar verður ekkert tekið á móti honum hinumegin í bili! Uss og fuss heyrist að vísu í Garðari við þessi tíðindi - hann sé á biðlista og trúir því ekki að samdráttur sé "hinumegin".

En nú er hann mættur - rómurinn á sínum stað og liggur ekki á skoðunum sínum.

Svo eru nýir tískustraumar á Ísafirði. Óli frá Gjögri gengur um í galla einum - miklum - appelsínugulum og merktum með talnarunu. Hann tjáir þeim er heyra vilja að hér sé um fangagalla að ræða - nú séum við íslendingarnir komnir í slíka skuld að við verðum fangar þeirra skulda um ókomin ár - og hann einfaldlega ríður á vaðið með nýrri tísku. Fer honum bara vel - og ætlar hann ennfremur að setja á höfuðið forláta húfu sem hann dró af sjóreknum Rússa á Ströndum - eða þjóðverja - en hann segir körlunum við kaffiborðið að "reki" hafi ávallt verið nýttur í Árneshreppi og enginn hafi verið svo fátækur að ekki hafi átt gullúr! Svo fær hann sér rettu frammi - varð að hætta með pípuna vegna hósta - en er allur annar eftir að hann tók upp sígarettu reykingar.

Já, úti er frost - en hjá Braga eru umræður heitar og tískan í lagi!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Mér sýndist Óli nú vera í frakka í dag. Forláta hnésíðri úlpu sem hann fékk úr dánarbúi eftir því sem Bragi segir. Bragi sagði nú enn fremur að þetta væri nú bara mittisúlpa af meðal manni. Ekki veit ég hvað hann átti við með því. Óli er nú ekkert svo lítill, hann hefur allavega alltaf náð niður hingað til. Hvað varðar Maggúd þá er þetta allt annað líf eftir að hann kom aftur. Það er eins og grjónagrautur á grjóna að hafa hann ekki.

Ingólfur H Þorleifsson, 31.10.2008 kl. 20:08

2 Smámynd: Rannveig H

Ég fagna hverri sögu úr Bragakaffi,nú er spurning hvort það eigi ekki að safna þeim saman í bók til að gleðja á krepputímum.

Rannveig H, 31.10.2008 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband