Stefnumót við óvissuna

Ég sagði frá því í færslu í fyrra þegar ég gekk Óshlíðina alræmdu með bóndanum á Hanhól. Þá sór ég þess eið að gera það ekki aftur.

Nú hef ég brotið þann eið - ég gekk á ný. Átti stefnumót við óvissuna.

Það var myrkur þegar er ég leit út um gluggann - laugardaginn 13.september. Ég var þreyttur - enda sofið illa - dreymdi fyrri göngur með bóndanum og sá mig falla fram af björgum og brúnum - niður skriður og enda óþekkjanlegur í fjöruborðinu.

Í morgun kulinu keyrðum við Harpa Grímsdóttir á vit örlaganna - hittum fyrir bóndann í Óshlíðinni skammt norðan Kálfadals - þar sem hægt var að leggja bílunum. Harpa fór ásamt Ásgeiri upp ófærur sunnar í Óshlíðinni og áttu að reka fé sem leið lá norður hlíðina og koma til móts við okkur í Kálfadal. Líkur hér þætti Hörpu og Ásgeirs í frásögn þessari.

Við bóndinn héldum sem leið lá upp frá veginum neðan Kálfadals - með hjálp kaðalspotta gátum við auðveldað leið okkar upp bratta hlíðina þó grjóthrun skapaði hættu fyrir þann er á eftir kom. Bóndinn var á eftir - ennþá hafði ég þolið í lagi.

Í Kálfadalnum er umgjörðin hrikaleg - dalverpi umlukið bröttum hlíðum sem enda í þverhníptum hömrum - dalurinn fullur af grjóti sem einhvertíma féllu úr hamraveggjunum. Mjög mikilvægt er á þessum slóðum að vara sig á grjótskriðum og lausum steinum sem liggja á berginu og með það í huga hlýddi ég bóndanum þegar hann rak mig upp brattann - ég átti að standa fyrir ofarlega til að missa ekki féð upp á víðsjárverðar syllur. Ég dæsti - skrefin voru þung - brattinn mikill. Ekki gat ég séð á bóndanum að hann blési úr nös - gekk með mikinn staf - og notaði hann til styðja sig í brattanum - með honum gekk smalahundurinn og vissi vel hvað stóð til.

joi_me_staf.jpg

Útsýnið var stórfenglegt inn djúpið  og sólin glennti sig yfir Sæfjallaströndinni. En ekki dugði að kvarta - kindum verður að smala.

 

 13092008_001.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Segja má að slíkar ferðir séu ekki fyrir lofthrædda og á stundum þegar litið var niður þá var ekki laust við að um mann færi hrollur -

 13092008_010.jpg

 

betra að fara sér hægt og horfa beint fram veginn. En þegar horft var fram veginn þá auðvitað skánaði það lítið - framundan voru hrikalegir klettar - skriður og það hlaut að vera hverjum manni ljósara að slíka leið færi enginn ótilneyddur! Ertu hræddur bjálfinn? spurði bóndinn. Ha ég, svaraði ég og þóttist vera ískaldur og rólegur!

13092008_009.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Já - nú skipti sköpum að halda ró sinni -eða eins og bóndinn sagði við mig í síðustu göngum - og sem áttu að verða mínar síðustu...."úr þessu er ekki hægt að snúa við....vertu rólegur"!!

Við settumst niður - bóndinn fylgdist með gangnamönnum í fjarska og gaf skipanir í talstöð -

13092008_011_679792.jpgBetra að fylgjast vel með öllu til að féð rjúki nú ekki í ógöngur.

13092008_012.jpg

 

 Já - þarna sat hann á toppnum - gaf skipanir niður hlíðina og hjá sátu smalahundarnir Salka og Píla - tilbúnar að hlaupa fyrir féð ef það reyndi eitthvað fyrir sér - væri með útúrsnúninga.

 

 

 

 

En áfram skildi haldið - ekki var okkur til setunnar boðið - á Ósi var beðið eftir okkur og við urðum að vera komnir með féð fyrir Óshyrnu ekki síðar en 8. 

Skriðurnar biðu - syllurnar virtust hrikalegar og mér fannst ég lítill og tilgangslaus - svo hrikaleg var náttúran þennan morgun.

13092008_013_679795.jpgHvern fjandann voru þessar rollur að vilja á þennan stað? Þessar heimsku Vestfirsku rollur.

Eða voru þær svo vitlausar...kannski var það mannskepnan sem í heimsku sinn elti þær um kletta og skriður?

 

Þá var gott að hafa tryggan vin - sem fylgdi manni um hvert fótmál og hljóp uppi fé sem ekki fylgdi settum reglum - kannski ekki alltaf - en stundum!

Já henni Sölku fannst það nú ekkert mál að hlaupa upp og niður skriðurnar - feta sig eftir syllum.

13092008_006.jpg13092008_007.jpgRollunum varð ná heim - um annað var ekkert að ræða.

 

 

 

 

 

Já smölun í Óshlíð er ekkert gamanmál - þó auðvitað maður finni til sín - daginn eftir!

Í einni alverstu skriðunni - rétt undir henni Þuríði sjálfri komust nokkrar ær upp bratt gil. Bóndinn sigaði mér yfir háls fyrir ofan gilið - brattinn var slíkur að ég þurfti að reka niður göngustafinn til að renna ekki af stað og enda fyrir björg. Ég var þreyttur - blóðbragð í munni og helvítis rollunum hugsaði ég gott til glóðarinnar. Þegar ég loks hafði mig upp á hálsinn gerði ég mér grein fyrir því að fyrir neðan mig var klettabelti - og skriðan var hrikaleg handan við hálsinn. Ég sá nánast svart - þreytan var slík að ég hugsaði með mér að bráðum gæfist ég upp - myndi sjálfsagt enda í grjótgirðingunni niður við veg!

En yfir hálsinn klöngraðist ég - og sá rollu fjandana - ær með tvö lömb - að mér sýndist - en svitinn blindaði mig þó þrjóskan ræki mig áfram. Rollunum skildi ég ná. Í talstöðinni brakaði "hvar ertu...drífðu þig nú"...helv...bóndinn hugsaði ég - helv...rollurnar!!

Þær störðu á mig - glottu að mér sýndist - tóku svo á rás og upp skriðuna....hver andskotinn er að þessum skepnum hugsaði ég - vita þær ekki að leiðin er niður!! Ég hafði mig af stað - við hvert skref leið mér eins og nú væri ég allur - enda gjörsamlega búinn. Í talstöðina brakaði "komdu bara niður - við náum ekki þessum" - ha...var bóndinn hættur við - búinn að siga mér upp í efstu gljúfur - og þegar ég loks kemst þangað ódauður þá á ég að koma niður.....djöfuls....hugsaði ég.

En að fara niður reyndist ekki skárra - skriðan var laus í sér og fór auðveldlega af stað - með mig. Hruflaður - skítugur og sveittur komst ég loks niður - rollulaus! Blótandi og hinn versti  - aldrei skyldi ég fara aftur í slíka ferð - aldrei.

Ég sofnaði þreyttur þetta kvöld.

Snemma morguninn eftir hringir síminn. "Góðan daginn" segir glaðleg og kunnugleg rödd í símanum - þetta var bóndinn - ég svaraði ekki - þagði - en að lokum bauð ég góðan dag.

"Segðu mér" hélt hann áfram, "þessar rollur sem þú skaust eftir þarna upp brekkuna í gær - sástu ekki örugglega markið á þeim?!"

Ég þagði - svo lagði ég símann á og hélt áfram að sofa.

Síminn hringdi aftur. Ég svaraði. Aftur var það bóndinn - "ég ætla að líta eftir þeim - ná þeim niður og var að velta fyrir mér hvort þú myndir ekki skjótast með mér". 

Ég lagði á - tók símann úr sambandi og sofnaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 23.9.2008 kl. 16:13

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Óborganlegt.  

Tolli minn, þú átt alla mína samúð og skilning. Þessar bévítans skjátur!

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.9.2008 kl. 17:14

3 Smámynd: María Richter

Yndisleg saga. 

María Richter, 24.9.2008 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband