Frændur vorir og forfeður...

Það er mörgum hugleikið að leita upprunans. Í sjálfu sér er það hið besta mál og undir hverjum og einum komið að gera slíkt.

Ekki var ég beint í þeim erindagjörðum nú fyrir skemmstu þegar ég heimsótti okkar gömlu höfuðborg, Kaupmannahöfn, ásamt konu og sonum tveim. Markmið ferðarinnar var í annan stað að sýna piltum fornar slóðir okkar íslendinga og hinn staðinn að leyfa þeim að njóta lystisemda stórborgar - tívolí með meiru.

En þegar slík borg er heimsótt er auðvitað ekki hægt að komast hjá því að rekast á fleira fólk en dani - frændur vorir og forfeður, norðmenn eru auðvitað þar á hverju strái. Mér gafst því tími til að virða fyrir mér fólkið og velta fyrir mér hvernig í ósköpunum við íslendingar urðum eins og við erum.

En hápunktur samanburðarins var kvöld eitt þegar við fjölskyldan urðum vitni að ákaflega skemmtilegu sjónarspili. Á Strikinu fræga var mættur danskur miðaldra maður - gráhærður mjög og með skegg. Var eitthvað svo heimilislegur þar sem hann sat í hægindastól með baðvog fyrir framan sig. Og hvert var málið - jú hann bauð fólki upp á að láta hann giska á líkamsþyngd....alveg ókeypis - nema ef honum tækist að giska á þyngdina innan tveggja kílógramma skekkjumarka - þá þurfti maður að borga honum 20 krónur danskar!! Baðvogin staðfesti svo rétta þyngd - svo ekki var um vilst enda um virðulega mekaníska vog að ræða - ekkert digital kjaftæði.

Mér var skemmt. Ég fylgdist með karlinum giska - fyrst kom að eldri maður sem reyndist vera 83 kíló og kostaðu þær upplýsingar hann 20 krónur og konan hnussaði og sveiaði... - næst giskaði sá danski á þyngd konu og fór með rétt mál. Ég fylltist aðdáun og fannst hann ansi seigur - því ekki fékk hann að klípa í fólkið né lyfta því - bara að horfa á og meta.

Og þá bar að norðmann. Svona hálf álkulegur, með gulleitt hárið og yfirvaraskegg. Hann var í glænýjum kakí stuttbuxum - og undirstrikaði afslappað útlitið með köflóttum og hnéháum sokkum - sem féllu vel að grænleitum sandölunum. Hann var eitthvað svo "heia norge" í útliti. Ég var viss um að þó að hann týndist þá væri hann aldrei í hættu - honum yrði einfaldlega skutlað í næstu "norsku sjómannakirkju".

En hvað um það - ekki má dæma menn fyrir útlitið. Hann virtist til í tuskið - ber að ofan og þrátt fyrir að vera illa sólbrenndur á öxlunum þá brosti hann hann breiðu brosi og leit á félagana um leið og hann sagði "nu vinner vi tyve kroner gutter"..... sem útleggst "nú græðum við tuttugukall strákar"....

Gúddag, sagði sá danski, Viltu láta vega þig? Akkúrat, svaraði sá norski og kímdi. Það var ekki á hverju degi sem hann gæti grætt svona - fengið sig veginn og það gratís...

Sá danski setti sig í stellingar - horfði djúpt í augun á þeim norska. Gekk hægt fram og aftur og dæsti - já þetta var ekki létt. Norðmaðurinn svitnaði, ekki bara út af hitanum, heldur vegna spennings - undir var jú tuttugukall.

Jæja min ven, sagði sá danski - leit á norsarann og sagði hátt og snjallt "treoghalvtres"....sjötíu og þrjú kílógramm - versigú!

Það fór um norsarann - var þetta rétt....var hann að láta danskann slána hafa af sér tyvekroner.....

......lágur kliður fór um áhorfendur og það hefði mátt heyra saumnál detta....slík var spennan - enda eru tuttugukrónur miklir peningar í noregi - í það minnsta gera þeir allt til að spara þær. En hvað um það, norsarinn steig á vogina.....nálin dansaði....nálgaðist töluna 71...sem var innan umsömdu 2ja kílóa skekkjumarkanna. Norðmaðurinn fölnaði.....ljósrauði liturinn hvarf úr andlitinu og meira að segja yfirvaraskeggið virtist lýsast...fór úr ljósrauðu í drapplitað.....hann skalf...nálin skalf ....vogin skalf......

Svo stökk hann af voginni - rak upp stríðsöskur og sagði svo glumdi í öllu danaveldi  "nálin stoppaði aldrei....ég vinn"....ég vinn...ég vinn...ég vinn.....hún náði aldrei allveg 71 kílói.....hurra...

Danskurinn klappaði honum föðurlega á öxlina og sagðist samþykkja dóminn enda væri hann vopnlaus og gæti ekkert gert til að ná tuttugukallinum...til þess þyrfti jú her - gráan fyrir járnum. Svo hló hann. Svo hlógum við öll sem á horfðum. þetta var sjónarspil. Bardagi upp á líf og dauða....eins og tekið úr Njálu......eða ekki.

Og af þessu fólki erum við víst komin......ja hérna.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agnes Ólöf Thorarensen

Skemmtileg saga....hehe...

Agnes Ólöf Thorarensen, 5.8.2008 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband