Kristján Sverrisson f.14.05.61 d.24.08.07 Minningargrein.

Vinur. Þegar maður á kyrrlátu kvöldi situr og hugsar um góðar stundir í félagsskap Kristjáns kemur orðið vinur upp í hugann og á svipstundu breytist það í hugtak – ánægjulegt hugtak. Það hefur svo djúpstæða merkingu. Við Kristján vorum fyrst og fremst vinir. Leiðir okkar lágu saman fyrir ekki svo löngu en tíminn er afstæður og vinskapur ekki á nokkurn hátt tengdur tíma. Vinskapur byggir á svo mörgu öðru. Hjá okkur Kristjáni byggðist vinskapurinn á gagnkvæmu trausti, einlægni og virðingu.Við vorum einfaldlega vinir án nokkurra skuldbindinga – vinir af einlægni. Kristján var þannig af guði gerður að honum tókst ævinlega að hrífa með sér fólk - kannski af því að hann talaði við alla af virðingu – oft í glettni – en alltaf af virðingu. Kristján kunni líka þá list að hlusta, hlusta á það sem fólk hafði að segja. Ég hef fáum kynnst sem hefur verið eins auðvelt að tala við. Áreynslulaust gátum við rætt málin, engar fyrirfram ákveðnar skoðanir, engar reglur til að fylgja – bara samræður sem þróuðust út frá eðli málsins. Það er í mínum huga náðargjöf að kunna slík samskipti. Þá náðargjöf hafði Kristján.Kannski náðum við svo vel saman vegna sameiginlegs eiginleika okkar, en Kristján var ansi virkur, svona hálf ofvirkur á stundum – ekki ólíkur sjálfum mér. En við þurftum aldrei að eyða miklum tíma í spekúlasjónir, slógum fram hugmyndum og samþykktum eða ekki – allt gert á svipstundu. Báðir eirðarlausir í eðli okkar – höfðum gaman af því að skreppa og skoða, vera á sveimi og fylgjast með. Sjálfsagt þótti mörgum nóg um, en svona var bara Kristján og mér líkaði það vel – fann svo góða samsvörun í þessu, enda urðum við vinir. Og nú sakna ég Kristjáns – vegna svo margs – allt er svo miklu hægara – lífið svo fátækara og tómleikinn mikill. Ég er búinn að missa góðan vin. En þeir sem mest hafa misst eru þau sem hann elskaði mest. Anna, Eva, Linda, Ísak, Annetta og Ásgeir. Í hjörtum þeirra er sorg sem seint mun hverfa. Elsku vinir, Kristján mun alla tíð eiga pláss í hjarta okkar enda ástkær eiginmaður og faðir. Og góður vinur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Falleg minningargrein.

Ylfa Mist Helgadóttir, 3.9.2007 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband