Lögreglumál fyrir Vestan - næstum.

Nú er maður byrjaður að skokka. Auðvitað ætlaði ég að byrja í vor - reyndar strax eftir áramót - 1.janúar ef ég á að vera nákvæmur. En vorið var stutt og ég tók ekki sénsinn. Ekki út af hálku eða slíku - nei einfaldlega vegna þess að ég hefði komið af stað meiriháttar lögreglurannsókn ef ég hefði farið út að skokka.

Já - maður er kominn í þann þyngdarflokk að aðdráttarafl jarðarinnar svínvirkar - á mig. Og það þýðir að ef ég hefði farið út að skokka og snjóföl hefði verið þá hefðu sporin verið túlkuð á þann veg að líklegt hefði mátt telja að einhver hafi verið að draga lík og allt hefði farið á fullt á löggustöðinni. Leynilöggurnar ræstar út og sérsveitin mætt vestur í svörtum lopapeysum með lambhúshettu.

Nei ég tók ekki sénsinn. Reiknaði með að spikið myndi renna með hækkandi hita - en því miður hefur þetta einhvernvegin stoppað allt við beltið sem varla sést lengur - þetta fína Lloyds belti - rándýrt og keypt í Köben.

En nú er ég semsagt byrjaður - kominn á nýja Adidasskó. Konan auðvitað allsendis ósátt við nýju skóna  sem eru dálítið út í rautt.... - því mér skilst á henni að ég líti út eins og berserkjasveppur þegar ég fer af stað í rauðri Arsenaltreyju og í hvítum skóm með rauðar rendur.

En ég ákvað þetta sjálfur - reyndar þegar ég tók eftir því að mér gekk illa að verða brúnn á síðunum - þær voru eitthvað svo í miklum skugga - en sixpakkið auðvitað kaffibrúnt. Svo þegar ég reyndi að liggja á maganum til að fá lit á bakið þá vildi ég velta út á hlið. Ég tók því sjálfstæða ákvörðun og byrjaði að skokka. Held mig úr alfaraleið því allt of margir hafa farið á fyrstuhjálparnámskeið hjá Rauðakrossinum og ég fékk aldrei frið - allir ætluðu að pumpa mig í gang þegar þeir mættu mér  - bláleitur maður í rauðu dressi.

En ég held mínu striki - maður byrjar jú auðvitað í lélegu formi. Tölum saman eftir mánuð - helköttaður í spandexgalla.

Það heldé'nú.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skafti Elíasson

Þá það er eins gott að vera ekki tekinn af pundurunum með of miklan öxulþunga !!

Skafti Elíasson, 18.7.2007 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband