Grásleppufeðgar.

Það eru ljómandi góðir feðgar á Ísafirði og ýmislegt gera þeir sér til dundurs. Ég kýs að kalla þá grásleppufeðga - þeir keyptu sér nefnilega bát um daginn og hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Nú átti að fylla tunnur af dýrindis hrognum - verða vellauðugir útgerðarmenn. Auður er málið eins og maður les í blöðunum - enginn er maður með mönnum í dag nema að geta selt hlut uppá milljarða.

Ég átti svo leið um Óshlíð í kvöld. Sólin lék við hafsflötinn og Grænahlíðin og Riturinn risu hátt við gylltan sjóndeildarhringinn. Stórkostlegt veðrið og Óshlíðin græn og blá af lúpínu. Það var eitthvað svo dásamlegt við þetta allt saman. Ég stöðvaði bifreiðina úti í vegkanti - steig út og opnaði skottið fyrir Sölku. Salvör Valgerður nafna hennar hefur líklegast ekki séð sjávarplássið Bolungarvík í sama ljóma - ef það er þá sögusviðið í Sölku Völku. En hvað um það - Salka stakk sér niður í flæðarmálið og öldurnar skullu á ströndinni taktfast af stóískri ró. Innlögnin var hverfa - það var að lygna.

Rétt undan ströndinni voru þeir feðgar að draga net - grásleppunet sem þeir höfðu lagt undir hlíðinni. Í rauðum göllunum voru þeir tignarlegir á dekkinu. Ég tók upp kíkinn og mundaði - aflinn var að mér sýndist ekki mikill - grásleppa og skötuselur í bland. Þetta var skemmtileg sjón - feðgar að draga fisk úr sjó í veðri sem passar landslaginu svo vel fyrir Vestan. Ég fékk vatn í munninn við tilhugsunina um grillaðan skötusel - fátt betra. Yndislegt á sumarkveldi.

Já í öllu tali um meðafla - niðurskurð og brottkast er gaman að sjá grásleppukarla við vinnu - draga net og björg í bú - engu kastað.

Hvað verður um þorskinn sem kemur með í trollunum þegar ýsan - ufsinn og steinbíturinn er veiddur - þorskurinn sem verið er að vernda. Kemur hann í land eða verður honum kastað? Er hægt að vernda eina tegund en ekki aðra - þegar veiðarfærin gera vart upp á milli tegundanna?

tja, ekki veit ég - ég er ekki fiskifræðingur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skafti Elíasson

Skemmtileg lesning þú ættir að íhuga rithöfundarstarf...  Það væri kannski ráð að setja mynd af þorsk, ýsu eða því sem net eða línan á að veiða.

Skafti Elíasson, 4.7.2007 kl. 13:48

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, þú ert greinilega á heimavelli við textaritun.

Við skulum hafa það á hreinu að þessir feðgar verða að vera viðbúnir því að ef þeir landa þorski þurfa þeir að eiga kvóta. Annars eru þeir dauðamenn kerfisins.

Reyndar má nú vera að einhverjum tittum megi þeir landa og þá til ábata fyrir Fiskistofu.

Hvað spurningu þína um meðafla skipanna áhræri þá vitum við það báðir að öllum meðafla er hent ef hann skapar vandamál.

En veistu hvað þeir eiga við sem segja að við þekkjum ekki betra stjórnkerfi en þetta?

Færeyingar nota sóknarkerfið og landa þar með öllum veiddum afla.Þeir notuðu okkar kerfi í tvö ár og það varð þeim dýr og erfið reynsla sem þeir hafa ekki hug á að endurtaka.

Við Íslendingar erum hinsvegar svo gáfaðir, lærðir og vísindalega tengdir að við vitum betur en Færeyingar hvað þeim er fyrir bestu.

Árni Gunnarsson, 4.7.2007 kl. 15:06

3 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Veistu Tolli

Þessir grásleppufeðgar eru yndislegir og ég elska þá báða.  Ég hef sjaldan séð þá hamingjusamari eftir að þeir keyptu sér þetta leikfang og því má segja að þetta margborgi sig fyrir heimilið.  Steini var ekki hár í loftinu þegar hann fór á rækju með pabba sínum og kom heim með sjávarseltu í hári, angandi af fiskilykt blandaðri olíu og einhverju sem ekki passaði í fangið á mömmu hans.  Ef þeir væru á grásleppu í Færeyjum  þá þyrfti ekki að velta vöngum yfir þorski. Í Færeyjum er engu hent í sjóinn.  Kerfið þar gerir ráð fyrir því.  Á Íslandi erum við í stöðugum vandræðum með þorsk.  Við ættum að fá góð ráð hjá þeim frændum vorum í Færeyjum, þeir nota almenna skynsmi í bland við vísindi þegar þeir stjórna fiskveiðum.

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 4.7.2007 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband