Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vel varinn maður - það er málið - dörtí víkend fyrir Vestan.

Sumir hafa þörf fyrir að hafa vit fyrir - öðrum og þá sérstaklega maka sínum. Svoleiðis er það oft á mínu heimili - yfirleitt fylgir útskýring að um sé að ræða væntumþykju. Konunni þyki bara svo vænt um mig að hún sé bara að gera það sem er mér fyrir bestu. En nú er ég búinn að fletta ofan af þessu svindlaríi. Málið er í raun ekkert flókið - ég er líklega bara svona einfaldur - ég trúi. Í mörg ár hefur mér ekki tekist að verða brúnn og frúin hefur alltaf sagt við mig að ég verði bara ekkert brúnn - og borið á mig varnarsmyrsl svo ég brenni nú ekki. Með þennan áburð í farteskinu höfum við ferðast til útlanda - til heitu landanna - margoft. Alltaf er hef ég verði smurður áburðinum góða - nú til að ég brenni ekki - og alltaf hef ég haldið mínum íslenska bleik-gráa tón. Það má segja að ég hafi ekkert verið að skipta lit - og bara haldið mínum "tóni". 

Í ljósi þessara staðreyndar - að ég skipti ekki lit - hef ég gjarnan verið til taks fyrir frúna. Hún hefur auðvitað tekið lit þar sem hún liggur og slakar á - nú af því að hún brennur ekki - verður brún. Og auðvitað fylgir slíkum sólbaðslegum gríðarlegur þorsti - hitinn er svo mikill. Og hvað er þá betra en að hafa ólitskiptan mann í skreppið - eða til að passa strákana. Já þetta hefur verið mér óskiljanlegt mál - en hvað veit ég - konan hefur jú vit fyrir mér -og ég brenn segir hún.

En nú gerist það að gróðurhúsaáhrifin koma Vestur og ský dregur vart fyrir sólu. Sumarhitinn er ljómandi og bleikur bregður á leik - kominn á stuttar buxur og ber að ofan. En auðvitað vandast málið - nú maður má náttúrlega ekki brenna - og konan ekki heima. Ég fór því alsendis óhræddur að gramsa í sólarolíuskápnum inni á baði - og komst að hinu sanna. Á flöskunni sem ég hef séð konuna nota við áburðinn stendur - protection number 60 - protection for all radiations - even in space. Hananú hvái ég. Jaháá - það er náttúrlega verið að gera sér leik að einfaldleika mínum - verið að halda mér bleikum svo hægt sé að nota mig til þjónustustarfa. Nei takk, nóg komið - gúdd bæ.

Ég hrifsaði til mín "Tropical sunoil number 0" - löðraði mig hátt og lágt og renndi mér fótskriðu eftir baðherbergisgólfinu út í sólina -  líkt og Skarphéðinn heitinn Njálsson forðum daga - út í garð og í sólbað. Olían svínvirkaði - sólin vermdi og ég fann hvernig litarefnin í húðinni tóku til starfa - súkkulaðilituð slikja fór að myndast. Þetta vakti eftirtekt í götunni - ekki af því að ég lægi eitthvað á glámbekk - nei - tropical olían var með sterkum kókóskeim - ilmandi góð. Svo vel höfðaði hún til flestra að yfir mér sveimaði flugnaský - mér leið eins og nýskitinni kúadellu - eitthvað svo lokkandi - en samt svo dörtí - svona eins og þau fyrir sunnan "dörtí víkend in blú lagún".

Og auðvitað leið ekki á löngu þar til maður var ávarpaður á ensku - svo dökkur varð ég.

Já að vera rétt löðraður gerir gæfumuninn. Nú er bara að fá sér gullkeðju og þá er sigurinn unninn.


Getuleysi Byggðastofnunar - orsökin: Fjárhagsleg gelding.

Já við landsbyggðarlýðurinn megum vera þakklát fyrir aðgang að hjálp - og ekki amalegt þegar til er heil stofnun með starfsfólki í vinnu með að markmiði að eins og segir á heimasíðu Byggðastofnunar:

"Hlutverk

Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin undirbýr, skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Byggðastofnun fylgist einnig með þróun byggðar í landinu.Byggðastofnun vinnur að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir allt landið í samráði við iðnaðarráðherra. Í áætluninni skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu og lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni meðal annars að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða að lífvænlegar byggðir fari í eyði.Byggðastofnun heyrir undir iðnaðarráðherra sem skipar sjö menn í stjórn stofnunarinnar til eins árs í senn"

Undirstrikanir eru mínar.  En hvað segir svo þegar heimasíðan er skoðuð? jú (http://www.byggdastofnun.is/default/page/fjarmognun_verkefna):

Fjármögnun verkefna Fjármögnun verkefna er þríþætt; lán, styrkir og hlutafé. Hvorki eru veittir styrkir né hlutafé á árinu 2007.

 Já svei mér þá - mikið er nú gott að vita af þessari ágætu stofnun. Er ekki kominn tími til að ríkið taki sig saman í andlitinu og veiti þessari stofnun það fjárhagsumhverfi sem þarf til að það geti sinnt sínu hlutverki.

það er mín skoðun.


Eru bloggarar nýju Neytendasamtökin? Tja mér virðist svo vera.....

Ég hefi á stundum verið að kvarta - kvabba - benda á og jafnvel bulla í blogginu mínu. Mér finnst það á stundum gaman - leiðinlegt og jafnvel fáránlegt. En það er sama hvaða skoðanir fólk hefur á slíkum skrifum - þau eiga fullkomlega rétt á sér - þegar skrifin eru sett fram á skynsaman og ósærandi hátt. Blogg er ekki til þess að vera vondur - nei blogg eiga að vera skrif réttlætis náungans - til frásagnar - fræðslu eða upplifunar fyrir lesandann.

Og nú bar svo við að sl. laugardag í Reykjavík komst ég hvergi inn á smurstöð eða bifreiðaverkstæði - allt lokað - sorrý. Fékk svo úrlausn á vandamálinu í Búðardal - þar sem ágætis piltur greiddi úr vandanum og ég fékk brosið á ný. Um þetta bloggaði ég. Og áhrifin láta ekki á sér standa - síminn hringdi í dag og á hinum enda ímyndaðrar línu var maður frá bifreiðafyrirtæki í Reykjavík sem hafði áhuga á að kynna fyrir mér og öðrum í sömu sporum úrlausnir sem þeir vinna að - það er vel.

Ekki er tímabært að nefna á nafn hver það var sem talaði enda lofaði hann að senda mér tölvupóst til frekari útskýringar sem ég mun auðvitað setja hér á síðuna.

Ég fagna þessu og hlakka til að fá tölvupóstinn sem ég veit að mun kynna bætta þjónustu við bifreiðaeigendur. Ekkert fundarstúss hjá Neytendasamtökunum - engar langar ákvarðanatökur - bara nota gömlu góðu íslensku aðferðina - leysa vandann - redda málinu og allir una glaðir við sitt.

Meira þegar pósturinn bers.


Þjónustulund landsbyggðarfólksins.

Mér finnst líkt og höfuðborgarsvæðið sé taka á sig mynd kvikindis sem kallað er amaba - og ekki nóg með að það gleypi í sig nærliggjandi bæjarfélög og missi sjálfstæði og verði að klaufalegum úthverfum - eiginlega ekki neitt annað en útskot úr borginni - einskonar spenar þar sem fólk á leið út úr og inn í borgina stoppar við til að sjúga í sig og bifreiðarnar orku.

Borgarnes er að virðist slíkt fyrirbæri - í það minnsta undarlegasta sjoppa landsins sem kallast Hyrnan - er einskonar millibilsástand á milli lélegrar matvöruverslunar og matsölustaðar sem er ofvaxinn sjoppa - já og þar beið ég með fjölskylduna næstum klukkutíma eftir að fá í hendurnar kjúklingabita - djúpsteikta úr gamalli feiti að smakkaðist og franskar með. Eins og nærri má geta fór þetta illa ofan í mig - svona þversum.

Svo ókum við sem leið lá Vestur.

En veðrið var fallegt - umferðin silaðist áfram og fólk var yfirfullt af tillitssemi og enginn asi - allir auðvitað að koma úr ferðalagi - flestir greinilega á leið á suðurhornið enda þar sem flestir búa - þökk sé dánarvottorðum landsbyggðarinnar - en við börðumst gegn straumnum og héldum sem leið lá um Dalina á leiðinni Vestur á firði. Já Dalirnir eru fallegir á þessum tíma árs - túnin iðagræn og rollur að stelast í slægjuna. Lífið eithvað svo greinilegt - svo nálægt manni að maður skilur ekki hvernig stendur á því að búskapur skuli eiga undir högg að sækja.

Og til að kóróna sumarkvöldið - slægjuna og ótrúlega fjallasýnina þá tók fulltrúi Búðardælinga á móti okkur - bifvélavirki á smurstöð staðarins - með opnum örmum. Ungi maðurinn hafði átt leið á verkstæðið - á sunnudegi - en þegar ég bar upp spurninguna hvort að hann gæti nokkuð aðstoðað mig við - nokkuð sem höfuðborgarbifvélavirkjarnir neituðu alfarið á laugardegi - þá hló hann og sagði "að sjálfsögðu geri ég það".

Já það var ekki skortur að þjónustulund þessa manns. Og aðstoðaði mig gerði hann svo sannarlega - sem þýddi að það sem eftirlifði ferðina Vestur þá ókum við fjölskyldan í rólegheitum - viss um að allt væri í himnalagi. það var vel.

Ég mæli svo sannarlega með góðri þjónustu þeirra Búðardælinga.


Þjónustudepurð á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ekki auðvelt að vera utanbæjarmaður í Reykjavík. Ekki það að ég eigi hér um umferðarómenninguna sem auðvitað batnar ekkert þó bærinn fyllist af mislægum gatnamótum - ég er heldur ekkert að tala um stórkostlegar verslanir sem virðast eiga það eitt sameiginlegt að vera með útsölur sem sífellt fjölgar og teygist úr - skildi það tengjast óeðlilegri álagningu?

Nei ég er að tala um þjónustu sem ferðfólk þarf á að halda - en er því miður ekki til staðar. Í það minnsta gat starfsfólk 118 eða gulu línunnar ekki ráðið bót á vanda mínum - og vandinn var ekkert flókinn, mig vantaði einfaldlega að komast á smurstöð eða bílaverkstæði. Nokkuð sem mjög auðvelt aðgengi er að úti á landsbyggðinni - þar má m.a. sjá merkingar við sveitabæi þar sem boðið er upp á viðgerðarhjálp.

En hvað um það - ekki vantar auglýsingarnar frá N1 - Max 1 og hvað þetta heitir nú allt saman - "opið alla daga og laugardaga líka......" svo kemur maður á staðinn og þá stendur auðvitað "nema í júní ...júlí og ágúst"  ..... hm já - er það ekki sá tími ársins sem í það minnsta við landsbyggðarfólkið fáum flesta gesti - akandi. Ég er ansi hræddur um að landsbyggarðlýðurinn fengi gúmorren frá stórgrósserum Reykjavíkur ef ekki væri hægt að nálgast slíka þjónustu þegar þeir fara í laxinn - þ.e. þeir sem ennþá ferðast akandi - þyrlum fer víst fjölgandi.

En niðurstaðan er semsagt sú að aðgengi að smur- og viðgerðarþjónustu er ekkert - lélegt það.

og hana nú.


Minnkandi þorskveiði - efling rannsókna í þorskeldi. Gerum Vestfirði að miðstöð rannsókna í þorskeldi.

Í ljósi niðurskurðar í þorskkvóta sem kynntur var í morgun þá hafa verið gefnar út fjölmargar yfirlýsingar - bæði af hálfu stjórnvalda og einstaklinga í sjávarútveginum. Það sem er athyglisvert er að allir virðast sammála því að efla rannsóknir á lífríki sjávar og þorskeldi.

Rannsóknir í þorskeldi hafa verið stundaðar um árabil og miklum fjármunum hefur verið varið af fyrirtækjum í landinu á því sviði - sem dæmi má nefna HG í Hnífsdal líkt og forstjóri fyrirtækisins ræðir í viðtali við bb.is í dag.

Það sem etv. veldur mér þó dálitlum ugg í þessu sambandi er hve sterk ítök sjávarútvegsfyrirtæki hafa í þeim rannsóknasjóði sem helst styrkir þorskeldisrannsóknir - AVS rannsóknasjóðnum. Það er nefnilega forsenda góðra rannsókna að ekki sé um hagsmunapot að ræða - að rannsóknasjóðir geti á hlutlausan hátt veitt fjármagn í rannsóknir sem dæmast styrkhæfar af fagmönnum á viðkomandi sviði. Hinsvegar er ákaflega mikilvægt að samstarf ríki milli vísindamanna og hagsmunaaðila í þorskeldisiðnaðinum.

Á Íslandi ríkir sérstaða í þessu máli - sú sérstaða byggir á því að það eru helst fiskveiðifyrirtækin sem stunda þorskeldi - ekki sérstök eldisfyrirtæki líkt og í nágrannalöndunum. Kosturinn felst auðvitað í því að mikil reynsla og þekking á vinnslu og gæðum er innanborðs - sem er vísindamönnum mikilvæg og því samstarf dýrmætt. Hinsvegar eru það ekki forsendur þess að rannsóknum skuli stýrt af fyrirtækjunum - eða hvaða rannsóknum skuli veittur styrkur.

Sjávarútvegsráðherra verður að efla til muna AVS rannsóknasjóðinn - endurskipuleggja styrkveitingar og þau ferli sem umsóknir hljóta þar - í ljósi þeirrar stöðu sem iðnaðurinn er í og sjá til þess að ekki verði um hagsmunaárekstra að ræða. Að öðrum kosti verða rannsóknir í fiskeldi ekkert annað en athuganir sniðnar að hentugleika þeirra sem mest ítök hafa.

Á Vestfjörðum hafa þorskeldisaðilar og vísindamenn áttu gott samstarf um rannsóknir í þorskeldi í sjókvíum - sem athygli hefur vakið langt út fyrir svæðið og hafa m.a. erlendir þorskeldisaðilar gert sér ferð Vestur á firði til að kynna sér rannsóknir og leita eftir samstarfi. Í mínum huga er því ekki spurning að vagga þorskeldisrannsókna í sjókvíum er á Vestfjörðum - þar er aðstaðan, þekkingin og getan.

Ég skora því á Sjávarútvegsráðherrann að nota tækifærið og veita mun meira fé í rannsóknir í þorskeldi á Vestfjörðum. Að með þeim hætti verði styrkum stoðum skotið undir þá uppbyggingu sem þar hefur farið fram svo rísa megi glæsileg aðstaða til fjölbreyttra og mikilvægra rannsókna í þorskeldi.


Þetta hlýtur að skapa vandamál - ekki bara þjóðfélagsleg - heldur veiðitæknileg.

Og hér á ég við veiðitæknina. Með þeim veiðarfærum sem notuð eru er og verður vanamálið meðaflinn. Hvernig á að vernda þorsk þegar vitað er að hann er meðafli þegar verið er að veiða ýsu!

Nú hlýtur ráðherra að efla veiðarfærarannsóknir til muna - og allt sem snýr að fiski og fiskeldisrannsóknum. Við hér fyrir Vestan erum tilbúin að taka það verkefni.


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný uppgötvun í læknavísindum - erum við að hafa sigur í baráttunni við krabbamein?

Vísindamenn í Umea í Svíþjóð birtu nýja uppgötvun í nýjasta hefti tímaritsins Science. Hér er um gríðarlega mikilvæga uppgötvun að ræða sem m.a. getur haft í för með sér að ráðgátan um hvað veldur stökkbreytingum í frumum sem leiða af sér krabbamein.

Þessi uppgötvun þýðir á mannamáli að skilningur á því hvernig DNA (erfðaefnið) afritast - þ.e. býr til nýtt DNA sem er nákvæm eftirmynd. Lengi hefur verið vitað að ákveðið ensím (ensím er hvati sem örvar efnahvörf frumanna) hvetur afritun annars tveggja strengjanna sem mynda DNA  - en þá er bara hálf sagan sögð því vísindamenn hafa ekki verið sammála um hvaða ensím hvetur afritun hins strengsins. En nú eru vísindamennirnir semsagt búnir að komast að þessum mikilvægu upplýsingum - ensímið er fundið og skilgreint. Fékk það fína nafn polymerasi Ypsilon.....hitt heitir jú polymerasi delta.

En hvaða máli skiptir þetta? Jú, þetta ensím er ekki aðeins nauðsynlegt til að mynda nýtt DNA - heldur er hér um að ræða ensím sem tekur þátt í að lagfæra skemmt DNA. Þetta þýðir því að skilningur á því hvað veldur stökkbreytingum sem síðar leiða til krabbameins eykst til muna - og verður til þess að hægt verður að þróa mun öflugri krabbameinslyf - lyf sem stöðva vöxt krabbameinsfruma.

Já þetta er ákaflega ánægjuleg tíðindi og ég sofna í nótt með þá von að þetta muni skila sér fljótt til okkar.

 


Í ljósblárri stuttermaskyrtu, drapplitum kakíbuxum og dönskum lakkskóm að skoða olíuhreinsistöðvar. Hópferð Vestfirskra sveitarstjórnarmanna.

Ég hef alltaf haft gaman af því þegar íslenskir sveitarstjórnarmenn fara í hópum út um heim að skoða. Óborganlegar ferðir sem auðvitað skila engu öðru en sólbrúnku, timburmönnum og dagpeningum í vasann.

Nú er hópurinn haldinn af stað - út í heim. Nú á að skoða olíuhreinsistöðvar - berja dýrðina með eigin augum - sannfærast af hreinleikanum og grænu svæðunum allt um kring. Allir í nýjum fötum - glansandi dönsku lakkskórnir virðast mattir samanborið við glæsilega strompa og glitrandi rör og pípur. Engin mengunarlykt nema kaupstaðarlyktin af sveitamönnunum sem hafa aldrei áður séð annað eins. Slá sér á lær og hvá. Sumt er auðvitað eins og heima - eða líkt og maðurinn sagði í sinni fyrstu ferð til útlanda "þetta er alveg eins og heima - bara öðruvísi".

Og ég spyr: Hverju á þessi ferð að skila? Mér vitanlega er enginn sérfræðingur með í ferðinni - enginn til að leggja faglegt mat á það sem fyrir augum ber - ENGINN.

Ég hef verið því fylgjandi að rannsaka þá möguleika að hefja slíka vinnslu hér - RANNSAKA. Það þýðir auðvitað ekki að ég ætli sjálfur að leigja mér spóluna með Steven Seagall þar sem hann berst við glæpona í olíuhreinsistöð í Alaska - nei það þýðir að fá til þess bæra einstaklinga - sem kunna að vega og meta - matreiða niðurstöður fyrir sveitarstjórnarmennina sem eru í þessum orðum skrifuðum í stuttermaskyrtum og kakíbuxum að skoða olíuhreinsistöðvar í útlöndum. Fá fram faglegt mat sem hægt er að vinna eftir. Ég veit að það er markmið þeirra sem kynntu þetta fyrir Vestfirðingum - þeir vilja vinna þetta fyrir opnum tjöldum.

Til að leggja okkar af mörkum þá höfðum við Ólína Þorvarðardóttir, sem sitjum í stjórn Vestfjarða akademíunnar, samband við fagaðila í olíuiðnaðinum í því markmiði að fá þá hingað til að ræða um málið - á ólhlutdrægan hátt. Niðurstaðan var sú að við vorum búin að fá jákvætt svar frá þessum aðilum - og svarið fylgir hér með.

Ég tel að í stað tilgangslausra ferða til útlanda - nokkuð sem er úrelt fyrirbæri og marklaust að mínum dómi þá væri nær að vera með opinn fund fyrir íbúa svæðisins - enda hefur bæjarstjórinn gefið út þá Hafnfirsku yfirlýsingu að um íbúakosningu verði að ræða. Nokkurskonar "Hafnafjarðaheilkenni" - guð forði mér frá því að taka óupplýstur ákvörðun af þessu mikilvægi.

Hér kemur afrit af tölvupósti frá Hafsteini Ágústssyni olíuverkfræðingi hjá Statoil:

"Fyrrum starfsfélagi minn er nú orðinn forstjóri í Mongstad, stærstu olíuhreinsunarstöð Noregs. Hann væri til í að koma, en þarf meiri upplýsingar.
Þið þurfið sérstaklega að setja saman dagsskrána, hvað á að fjalla um, osv.fr.. alla vega titlar á erindaflokkum. Án þessa er varla hægt að fá nein stór nöfn til að koma. Hvorki Statoil né Hammerfest þjóna neinum eiginhagsmunum með því að koma, svo þeir koma til að tala um það sem þið viljið, og það verður að vera augljóst að toppfólk með áhrif og ákvörðunargetu sé til staðar.
Erindaraðir gætu t.d. verið
- Fjárfestingar og fjármagn, eignarhlutar
- Verklegar framkvæmdir, tímaáætlun
- Stærð og afköst, hráefni og afurðir (framleiðsluvörur)
- Samfélagsáhrif. Uppbygging atvinnu, jaðarstörf. Aðlögun þjónustu á staðnum (samgöngur, skólar, sjúkrahús, almenn og opinber þjónusta...)
- Umhverfismat; áhrif á náttúru, öryggisviðbúnaður
o.s.frv.
Þið ættuð að vera komin með nokkur nöfn, alla vega forstjóra sveitarfélagsins þar sem stöðin á að vera, einhvern frá Iðnaðarráðuneytinu svo ekki séu nefndir sjálfur iðnaðarmálaráðherra og einn eða fleiri þingmenn úr kjördæminu. Er ekki einhver opinber stofnun sem sér um að (hluta)fjármagna slíkar framkvæmdir? Þaðan verður einhver að koma. Ég geri líka ráð fyrir að þeir sem ætla að koma þessu verkefni upp séu með og haldi erindi, þannig að það hlýtur að vera komið á fast.
Hammerfest getur ábyggileg talað um áhrif Mjallhvítar á efnahag og fólksfjölda á svæðinu, bæði til langs og skamms tíma og að sjálfsögðu tekjur sveitarfélagsins af starfsseminni.
Mongstad getur lýst framkvæmdunum við byggingu, stækkun og rekstur, hafnarframkvæmdum (sem eru umtalsverðar) sjálfri stöðinni, orkuþörf, framleiðslumagni, tegundum og útskipun endanlegra afurða, losun gróðurhúsategunda o.s.frv.
Garfið þið í þessu og sendu mér tillögu um dagskrá. Þetta fólk þarf dagsetningu, stað, prógramm (alla vega yfirlit) og skýr orð um hvað það er beðið að tala um. Allt verður að vera á ensku"
En í stað þess að þiggja þetta þá skelltu menn sér í hópferð - en hver veit, kannski verðu af þessu. Í mínum huga er forsenda slíkra framkvæmda sú að allt sé uppi á borðinu - ekkert falið og engir hagsmunaárekstrar. Íbúar Vestfjarða eiga ekki að taka ákvörðun óupplýstir.
Það er mín skoðun.

Af hetju.

Nú þegar veðurkortin hafa sýnt heiðríkju og veðursæld má ætla að lífið leiki við okkur flest. Það er á slíkum dögum sem við gleymum þeim sem glíma við vandamál og sjúkdóma. Ég hefði verið einn af þeim ef ekki væri fyrir að minn góði vinur Kristján er að berjast fyrir lífi sínu - með eina ráðinu sem hann kann - lífsviljanum. Hann er líklegast ekkert frábrugðinn öðrum í svipuðum aðstæðum - en hann er frábrugðinn okkur sem höfum heilsu því að hann veit að hver dagur gjöf sem við eigum að fara vel með.

Í gærkveldi þegar ég heimsótti Kristján lá hann fyrir, enda kraftar litlir. Ekki var um annað að ræða en að fá hann lagðan inn á spítala til að aðstoða hann við að koma sér út úr þeim vítahring sem listarleysi og þreyta er - ekki skrítið eftir erfiðar geislameðferðir og lyfjainntöku.

Fyrir mér er hann hetja að gefast ekki upp. Fyrir honum er það ekki valkostur - lífið er það eina sem gildir. Það voru því blendnar tilfinningar fyrir hann og þá sem honum standa næst þegar sjúkrabíllinn sótti vin minn í gærkveldi til að flytja á sjúkrahúsið á Ísafirði. 

Og auðvitað mætti mér brosandi maður á sjúkraherberginu í hádeginu í dag þegar ég leit við. Kristján orðinn sjálfum sér líkur - að vísu veikburða en brosandi og glettinn. Hvílíkur léttir - hvílík gleði - ég fann til þakklætis og ánægju að sjá hve hálfur sólarhringur í réttum höndum fagfólks hafði skilað sér. Og í fyrsta sinn þær tvær vikur frá því að hann kom Vestur eftir erfiða geislameðferð skelltum við okkur út í góða veðrið og í bíltúr. Ánægjuleg samvera og ekki síður þegar við óvænt litum í heimsókn til góðra vina Kristjáns - þá var ekki laust við að tár sæist á hvarmi. Til þess eru vinir.

Já - það er eitthvað svo miklu ánægjulegra að upplifa sumarið þegar maður veit að þeir sem eiga um sárt að binda sjá loks sólina - sólina sem við hin tökum yfirleitt sem sjálfsögðum hlut.

Kristján er búinn að sína af sér meiri hetjuskap en ég hef áður kynnst og það eru sönn forréttindi að eiga slíkan vin.

Hann er hetja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband