Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Bjarni Harðar - harðar fór hann af þingi en áður hefur þekkst.

Fyrir Vestan er gjarnan talað um að hlaupa hart. Og ræfils Bjarni Harðar fór harðar af þingi en áður hefur þekkst.

Mér finnst ekkert skrítið við það. Hann er Framsóknarmaður. Og Framsóknarmenn virðast vera að bregða búi. Fámennur hópur mannskepna sem illa rekast saman og telja sig allir vera til forystu - forystusauðir.

Og ekki nóg með það heldur riðu Framsóknarmenn á vaðið og komu fyrstir manna með sjálfvirkar "mjaltavélar" sem tottuðu alla lausa spena þjóðarbúsins - blóðmjólkuðu. Nægir að nefna Finn nokkurn - skrattakoll.

En nú er öldin önnur. Nú er heimóttahátturinn búinn að hlaupa Framsóknarmennina uppi. Ný tækni sem kallast tölvur eru skírasta dæmið. Þekkingarleysið, fiktið og fitlið við takkana endaði með ósköpum og Bjarni Harðar fór út - fór heim í heimahagana.

Og eftir eru nokkrar eftirlegukindur sem líklegast lifa ekki af veturinn. Þeim var nær - þær rekast illa og verða því úti þegar harðnar á dalnum.

Örlögin eru ráðin og flokkurinn skorinn. Ekkert stendur eftir nema minningarnar um flokkinn forna sem eitt sinn var merki framsóknar.

En ég hef trú á að Bjarni muni snúa aftur - harður í horn að taka og fylginn sér. Fyrst verður hann þó að sækja tölvunámskeið svo ekki hendi aftur að hann klúðri baktjaldamakkinu.


Skáldið sem talar eins og skynsamur fjármálamaður - fjármálamaðurinn sem talar eins og lélegt skáld.

Svona upplifði ég Kastljósþáttinn í kvöld. Einar Már var rödd skynseminnar. Alþýðumaður þrátt fyrir að vera vel þekktur rithöfundur og skáld. Hannes Smárason rödd hrokans og lyginnar.

Ég er hrifinn af því sem Einar Már leggur til - að hlustað sé á fólkið í landinu. Að krafa sé gerð um að auðmennin þrífi sinn skít eftir sig sjálf.

Því má nefnilega ekki gleyma að þetta eru einkafyrirtæki - hlutafélög - sem valdið hafa þessum gríðarlega skaða. Ekki opinber fyrirtæki - þrátt fyrir að augljós aumingjaskapur eftirlitsaðila á alltof háum launum hafi valdið því að ekki var stigið á bremsuna!

Ég er nokkuð viss um að það hefði verið gert ef um "venjulegan" íslending hefði verið að ræða - en ekki flokksgæðinga sem verið var að "þakka fyrir góðan stuðning" með því að gefa þeim bankana.

Þessara manna verður minnst um ókomin ár sem mestu siðleysingjum sem lifað hafa - blóðmjólkað allan almenning sér til hagsbóta - og látið svo hina sömu þrífa upp eftir sig skítinn.


Einar Már - þú ert ekki aðeins maður hins ritaða máls - þú ert rödd alþýðunnar!


Eitt er að vita - annað er að skilja bara ekkert í því sem maður veit - fyrr en alltof seint!

Nú benda menn hver á annan. Þessi vissi þetta strax í vor - hinn jafnvel fyrr og þrátt fyrir að sá hafi vitað það þá hélt hann bara að hinn myndi gera eitthvað í því. Og svo skilur enginn neitt.

Eitt er að vita - hafa verið sagt - en allt annað er að skilja. Og það er vandinn. Björgvin fékk upplýsingar - honum var sagt - en alveg gleymdist að útskýra. Geir vissi allt fyrstur - Davíð var alltaf að segja honum frá - en hvernig getur sá sem ekkert skilur sjálfur útskýrt fyrir þeim sem þarf að skilja? Allt verður bara gjörsamlega óskiljanlegt!

Þeir kumpánar eru nefnilega bestir í veislum og við hátíðleg tækifæri - þegar allt er í góðum gír - en þegar kárnar gamanið þá fara þeir í ekkibendaámig leikinn margfræga!

Ég man eftir svo skemmtilegri ræðu hjá Davíð Oddssyni í veislu á Decode - þegar átti að veita fyrirtækinu 20 milljarða ríkisábyrgð - hnyttin og skemmtileg ræða í ógleymanlegri veislu. Þá var Davíð í essinu sínu - með allt á hreinu. Þá var líka svo gaman.

En nú er allt svo leiðinlegt. Allir að kvarta. Það er ekkert gaman - því þá þarf maður að sýna hvað í manni býr!

Og þegar ekkert býr í manni nema froðusnakk - ræður á tyllidögum - opnun nýrrar sjoppu - Nú þá er voðinn vís.

Þess vegna er nauðsynlegt að leita til þeirra sem kannski þegja dags daglega - en kunna að bregðast við þegar á reynir.

Og ef menn ekki leita eftir hjálp - nú þá þarf auðvitað að taka af þeim völdin!

Og mér sýnist staðan vera sú í dag - að það þurfi að hreinsa út þessa sem ekkert "vita" - nú eða "skilja" og setja inn þá sem skilja-geta-kunna.

Og það strax!


Bljúgir eru auðmenn horfandi í baksýnisspegilinn!

Markaðurinn í morgun. Siggi kúl í London - hver væri það ekki ....ef maður ætti tvöþúsundmilljónakróna íbúð....

En mikið var hann bljúgur - og talaði svo dásamlega rólega - svona ólíkt fyrri viðtölum þegar manni fannst á köflum að texta þyrfti kallinn. Að vísu virtist þetta vera eitthvað bissnessmannatalsmáti - þeir töluðu allir eins þessir kallar - hratt og óskýrt - svona einsog það tæki því ekki að tala - hefðu ekki tíma - þeir væru svo rosalega að bissnessisera!

En nú eru þeir bljúgir. Lítandi til baka og hefðu kannski ekki átt að vaða svona áfram. En þetta var bara svo gaman - svo rosalegur bissness. Í rauninni hinum að kenna sem ekki gátu fylgt með.

Allt svo öðrum að kenna. Allir eitthvað svo í London - orðnir svo júníversal.

Þeir hefðu átt að biðja um leyfi - ekki bara vaða svona áfram. Hafa samráð og leggja á ráðin. Plana og undirbúa.

Ekki ósvipað því þegar einn Bragakaffigesta var boðið í kvöldmatarboð hjá dóttur sinni og tengdasyni. Tengdasonurinn tók á móti honum í dyrunum - glerfínn. Gesturinn hváði - spurði um ástæðu sparifatanna - svarið var að þau væru gift! bara sisvona. Hann væri versigú búinn að giftast dóttur hans!! Og nú átti að fíra með veislumat. Auðvitað kunni tengdapabbinn nýbakaði og óundirbúni ekkert við að hleypa upp boðinu - var þó undrandi yfir hinum óvænta ráðahagi. Hafði svo sem ekkert á móti tengdasyninum - en þetta bara bar svo brátt að.... þó var dóttirin ekkert unglamb lengur - löngu flutt að heiman. En samt!

Á leiðinni út notaði gesturinn tækifærið - stoppar hjá tengdasyninum nýbakaða og laumar að honum "þú hefðir nú getað beðið mig um leyfi"!

Já - bankastjórarnir og tengdasonurinn hefðu vel getað beðið um leyfi!


Steingrímur J. Sigfússon

Mig rak í rogastans þegar ég hlustaði á Steingrím J. Sigfússon í Silfri Egils í dag - ég gat ekki betur heyrt en að hann sé búinn að stela hugmynd Feitafélagsins þegar hann segir okkur Íslendinga eiga að gera myntbandalag við Norðmenn - til að seðlabankarnir geti stutt við bakið á hvor öðrum!!..JÁ STYÐJA VIÐ BAKIÐ Á HVOR ÖÐRUM.....

Ekki það að við knattspyrnufélaginu "Feitafélaginu" séum að fara í myntbandalag - en Feitafélagið hefur hug á að gera toppliðum ensku úrvalsdeildarinnar (Arsenal-Chelsea-Liverpool og Man.Utd) tilboð um samstarf - svo að við getum bakkað þá upp þegar nauðsyn er - t.d. vegna meiðsla - og ekki veitir nú t.d. Arsenal af núna - en hjá þeim eru margir meiddir......- en við allir frískir hjá Feitafélaginu.

Það má því segja að Seðlabanki Íslands verði bakhjarl fyrir þann Norska á sama hátt og Feitafélagið verður bakhjarl toppliðanna á Englandi.

Auðvitað hefðum við getað stutt fleiri lið - en í ljósi þess að við teljum okkur hafa nóg með toppliðin þá getum við ekki boðið betur.

Svo er að sjá hvort þessu mjög svo góða tilboði okkar Íslendinga verður tekið.....Cool

Fyrstur utan fer auðvitað aðal - hann Páll Hólm - gríðarsterkur og sókndjarfur - gefst aldrei upp og er leiknari með boltann en flestir....

Pall_Holm_unglegur_og_ferskur

 


Engum dettur í hug að rétta nýfæddu barninu skærin til að klippa á naflastrenginn!

Og álíka gáfulegt er að halda að Geir Haarde muni víkja Davíð út úr Seðlabankanum!

Og það að Samfylkingin sé að koma með ályktun er álíka gáfulegt og að dópsalinn sem segist ekki bera á byrgð á notkun eiturlyfjanna sem hann selur!!

Samfylkingin er í ríkisstjórn - Samfylking fór væntanlega ekki í ríkisstjórn til uppfyllingar - til að fylla í tómu stólana?

Ástandið er grafalvarlegt. Allir á Alþingi bera ábyrgð í ljósi þess að þetta fólk var kosið til að gæta hagsmuna okkar - líka Steingrímur J. sem setið hefur manna lengst á Alþingi!

En við megum ekki gleyma því að við verðum að breyta til frambúðar - ekki rjúka til og vera með nornaveiðar eða "hreinsanir" - við eigum til fullt af hæfileika fólki - það þarf að sjá til þess að það fólk komi að málum - allt þarf að undirbúa vel og tryggja að um raunverulegar breytingar verði að ræða!!

Í guðanna bænum leitum ekki lausna til þeirra sem bera ábyrgðina í ríkustum mæli. Það er álíka gáfulegt og þegar Markaðurinn fær Hannes Smárason til að tala um ástandið.....hvílík fásinna!


Listaverð....hvað er það?

Mér finnst gaman að skoða auglýsingar - sérstaklega bílaauglýsingar. En á Íslandi er til ógnarfjöldi af flottum bílum sem maður kemst næst því að eiga með því að klippa út úr auglýsingu og hafa í veskinu....

En það er þetta með "listaverð".... hvað er það?

Tökum dæmi: Ásett verð er 5,2 milljónir - en "listaverðið" er 6,8 milljónir....og bíllinn fæst hugsanlega á ennþá betra staðgreiðsluverði.....og jú auðvitað....lán getur fylgt.....!

Nú skil ég ekkert. Hvers virði er helvítis bíllinn? Lánið sem var 4,5 milljónir....komið í 7,3 milljónir....bíllinn selst ekki og staðgreiðsluverðið komið í ennþá betra....og ásetta lækkað í 4,5 milljónir.....

Þetta er nefnilega ekki svo einfalt. En bankarnir þeir lánuðu eins og ekkert væri. Miðuðu við eitthvað "listaverð" - svo lendir bíllinn í tjóni og eigandinn á að fá greitt úr tryggingu - þá allt í einu er þetta "listaverð" bara eitthvað "listaverð" og allt í einu er miðað við markaðsverð....sem er auðvitað ekki til fyrir þennan bíl sem er handónýtur......sem þýðir að bílasali úti í bæ ákveður verðið og eigandinn skít tapar.....eða græðir allt eftir því hvaða verð bílasalinn setur á bílinn.....og maður spyr sig...er hann hlutlaus í málinu?

En hvað er þetta "listaverð"....sem allir miða við en enginn fer eftir!?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband