Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Af alveg hreint ljómandi leiðindum.

Ég hef óskaplega gaman af veseni. Það hlýtur í það minnsta að vera því að ég er alltaf að lenda í slíku. Ekki það að ég sé beint að gera einhvern fjandann af mér - nei, vesenið eltir mig á röndum. Það er bara þannig.

Þegar ég fer út í búð og er svona frekar að flýta mér þá vel ég alltaf rangan kassa. Eitthvað bilar eða afgreiðslustelpan hleypur fram í búð að kanna verð á einhverju sem hún ómögulega getur svo fundið... og tefur auðvitað tímann út í það óendanlega.

Nú eða þá að ég reyni að vera eins og allir hinir - fæ mér ADSL tengingu hjá símanum til að fá betri mynd í sjónvarpstækið og einfalda allt. Og þá fer auðvitað allt í steik. Ég næ ekki lengur nema helmingnum af stöðvunum - og að auki með frúna kolvitlausa að rexast í mér. Ætli það sé ekki þetta sem kallast að nota kvöldin til að tala saman í stað þess að horfa á sjónvarpið - tja líklegast.

Til að redda hlutunum fer maður í vídeóleiguna - ná í eitthvað rómantískt til að vera nú næs við konuna - hafa það kósí með poppi og græjum. Set diskinn í og auðvita skeður ekkert - diskurinn svo rispaður að maður þarf að skil'onum - en þá eru auðvitað öll hin eintökin úti. Svo rignir á mann á leiðinni heim - nú af því að ég hljóp í leiguna á skyrtunni.

Og þegar maður er gjörsamlega sprunginn og orðinn alveg kolvitlaus - búinn hasta vel á hundinn - sem auðvitað hefur ekkert með neitt að gera - hóta konunni skilnaði ef hún hætti ekki að kenna mér um það sem þeir uppá stöð tvö og hjá símanum bera ábyrgð á - nú þá ætlar maður auðvitað að hringja og kvarta við alla þjónustufulltrúana - þessa "sem eru við símann núna..".

Og þá er klukkan orðin tíu - og þjónustuborð stöðvar tvö búið að loka...........

Er ég bara einn um þetta...eða ??


"Helvítis vælið í ykkur karlmönnum...." sannleikurinn á bak við yfirlýsinguna.

Já hvaða karl hefur ekki fengið þessa gusu framan í sig....tja í það minnsta ég. Og nú hafa nýjar rannsóknir sýnt að kvenfólkið hefur nokkuð til síns máls - við karlarnir erum einfaldlega "viðkvæmari".

Rannsóknahópur við hina virtu rannsókna og heilbrigðistofnun Karolínsku Stofnunina í Stockhólmi hefur leyst gátuna um hversvegna konur virðast þola meiri sársauka en karlar og birt þær niðurstöður í hinu virta vísindatímariti PNAS. Fjöldi rannsókna hefur reyndar sýnt fram á að konur virðast hafa hærri sársauka þröskuld en karlar - en hingað til hefur ástæðan verið ókunn. En  nú er ástæðan semsagt fundin - og er Það er kvenkynshormónið estrogen sem stýrir þessari næmni fyrir sársauka - en estrogen styrkur í blóðinu hækkar til að mynda mjög við barnburð og sársaukaþröskuldurinn hækkar hjá hinni verðandi móður.

Já mér er sama. Það er enginn barnsburður sem hefur eins mikið álag í för með sér og það álag sem illa kvefaður karlmaður þarf að glíma við. Það er staðreynd.

 


Innreið tækninnar í íslenskar sveitir.

Ég hef sagt það áður að mér finnst stundum ansi líkt með Vestfirðingum og gömlum Eyfirðingum. Sameiginlegt eiga þeir að hafa glímt við nýjustu tækni og vísindi - og auðvitað haft sína sýn á hlutina.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að rafmagn komst á í sveitum Eyjafjarðar. Faðir minn kynntist því að ekki var rafmagn á bæjum þegar hann var að byrja sem dýralæknir. Svo kom að því að rafmagn var lagt og bændurnir gátu nýtt sér nýjustu tækni er því fylgdi. Eitt sinni er dýralæknirinn þáði kaffi hjá húsfreyju á bæ einum í Eyjafirði eftir að heimsókn í fjósi lauk spurði hann hvernig henni líkaði nýja rafmagnseldavélin. Húsfreyja hváði og sagðist nú lítið geta notað gripinn. "Nú", spyr þá dýralæknirinn - "er hún biluð?".  "Nei" segir húsfreyja, "hún er auðvitað mjög fljót að sjóða vatnið - en mér gengur illa að láta pottana haldast á rauðglóandi hellunum - þeir vilja hoppa og skopp um allt og enda ævinlega í gólfinu".

Bóndi einn við Djúp kom eitt sinn heim með glænýja þvottavél. Sú var dýrindis tæki og algjörlega sjálfvirk samkvæmt leiðbeiningum sem með fylgdu. Þetta átti að verða hin mesta búbót og hlakkaði í bónda þegar hann tengdi vélina í þvottahúsinu. Einu gleymdi þó bóndi - en það var að losa um tromluna sem fest hafði verið til að koma í veg fyrir skemmdir í flutningi. Svo þegar bóndinn og húsfreyja hafa sett í vélina - stillt hana á þvott og skrúfað frá vatninu - þá upphefjast hin mestu læti. Þvottavélin dansar um þvottahúsgólfið og húsfreyjan verður skelkuð mjög - gerir sig líklega til að taka vélina úr sambandi. Bóndinn stekkur til og kallar til húsfreyju "farðu frá ég ætla að opna útidyrnar" - "nú af hverju?" spyr þá húsfreyja - "nú þú sérð það nú manneskja - helvítið þarf að komast út til að hengja upp þvottinn".

Já tæknin getur á stundum strítt manni.


Akureyringurinn gengur í endurnýjun lífdaga.

Ég er Akureyringur - fæddur og upp alinn. Að vísu á ég ættir að rekja í aðrar áttir - en Akureyringur er ég og verð aldrei neitt annað.

Þegar ég var að alast upp á Akureyri voru til tvennskonar fólk - Akureyringar og aðkomumenn. Akureyringarnir voru auðvitað heilagri en beljurnar á Indlandi sem sást best á því að ávallt var aðkomumönnum kennt um það sem miður fór - eða "um var að ræða aðkomumenn" líkt og sagt var í dagblaðinu Degi þegar eitthvað miður hafði átt sér stað í bænum.

Og Akureyringar voru auðvitað ekki velviljaðir svona aðkomumönnum - helst áttu þeir ekki að vera að koma. Jafnvel þeir sem gerðust svo sókndjarfir að gifta sig til Akureyrar urðu auðvitað aldrei Akureyringar og varla börnin þeirra heldur - það tekur jú nokkrar kynslóðir að verða Akureyringur.

Svo komi háskólinn. Skiptar skoðanir voru auðvitað um þá stofnun. Flestar auðvitað jákvæðar. En Akureyringurinn - þessi af gamla skólanum - hann var ekkert of hrifinn. Nú auðvitað vegna þess að bærinn myndi fyllast af aðkomumönnum. Svo gekk það yfir og Háskólinn á Akureyri er auðvitað búinn að sanna sig sem hin mesta lyftistöng fyrir bæinn - svona "umhverfisvænt álver og olíuhreinsistöð" í einum pakka. Og aumingja Akureyringurinn hélt kjafti - búið að þagga niður í honum.

Já það var æ erfiðara að fyrir Akureyringinn að sinna skyldu sinni sem Akureyringur. Jafnvel hætta á að Akureyringurinn myndi deyja út.

En þá gerist það að Akureyringurinn rís upp. Já svo um munar. Akureyringurinn tók við Dalvíkingnum og gerðist bæjastjóri. Og tók auðvitað upp þá iðju sem Akureyringurinn kann best - að bölsótast út í aðkomumanninn. En nú bregður svo við að Akureyringurinn gerist mjög hnitmiðaður - leyfir suma aðkomumenn en aðra ekki - velur. Nema hvað - Akureyringurinn bannar alla aðkomumenn á aldrinum 18-23 ára - þeinkjú verrý möts.

Já Akureyringurinn er genginn í endurnýjun lífdaga. Og hver veit nema að Oddur heitinn frændi geri hið sama og fari að selja pylsur með rauðkáli í kofa niðrá Eyri sem heitir Höfn - banni vinstri blöð og selji bara Moggann. Að Herlúf heitinn opni verslunina Gránu svo að við strákarnir getum hlaupið inn í búð og kallað "selurðu herlúffur"...hlaupið svo út og skellt okkur í 3 bíó. Já það skildi þó aldrei vera.

 


Að vera á bakvakt getur borgað sig - fyrir Vestan.

Nú liggur það ljóst fyrir - Geiri má ekki fara um "frjáls" ferða sinna. Neibb - hann verður að hysja upp um sig og sínar -  og þar að auki eru "bakvaktir" stranglega bannaðar. Þetta er auðvitað hið versta mál - stór hluti íslenskra karlmanna hefur heimsótt Geira og notið þar alþjóðlegrar "fræðslu". Meira að segja bæjastjóri í stóru bæjarfélagi fyrir sunnan skrapp á "skyndinámskeið".

Alveg er þetta magnað hvernig gert er upp á milli bæjarfélaga. Alþjóðlegur listaskóli Geira gullputta er stoppaður af á meðan undirbúinn er alþjóðlegur skóli á keflavíkurflugvelli! - hvar er réttlætið.

Og nú þegar framtölin og skattarnir og allt liggur uppi á borðinu fyrir forvitna að skoða kemur í ljós að hæst launuðustu læknar landsins eru auðvitað fyrir Vestan. Nú af því að það hlýtur að vera svo erfitt að lækna þessa Vestfirðinga - þeim er auðvitað ekki við bjargandi. Eða það hefði mátt halda - svona í fyrstu. En auðvitað kemur í ljós að þeir fá svona fín laun af því að þeir eru alltaf á bakvakt. Eru semsagt á vel launaðri bakvakt á meðan stúlkurnar hans Geira var bannað að sýna list sína - já og máttu bara alls ekkert vera á "bakvakt" - og sumar þeirra eru læknar.....reyndar bara ekki íslenskir læknar.

Hlutskipti mannanna er misjafnt - það er mér ljóst af þessari umræðu allri.

Ég segi bara - Geiri skelltu þér í G-strenginn og komdu Vestur - hér er fullkomlega löglegt að vera á bakvakt og hún er í þokkabót vel launuð!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband